Skemmtilega færslan

Ég fór til Reykjavíkur í dag, eins og áður hefur verið frá greint. Byrjaði á því að fara að Hlemmi til að sleppa Viðari út, svo hann gæti skemmt sér á Laugaveginum á meðan ég mundi kveljast hjá tannlækninum. Um leið og ég stöðvaði bílinn kemur maður hlaupandi og spyr Viðar hvort hann eigi þennan bíl (og bendir á Grána). - Hún á hann (og bendir á mig). Maðurinn rífur upp hurðina, þar sem ég var komin hálfa leið aftur útá götu, og tilkynnir mér að ég sé með brotið afturljós (búið að vera brotið síðustu 10 árin eða svo). - Ég á svona bíl og get selt þér ljós og fleira, sagði hann (óðamála). Hringdu bara ef þig vantar eitthvað!!! Tannpínan var frekar slæm á þessu augnabliki svo ég benti manninum á að tjá sig betur um þetta við Viðar. Svo fékk ég hláturkast. Þetta er eitt af því fyndnara sem ég hef lent í lengi. Ég var einmitt að tala um það við Viðar að ég væri óánægð með að hafa borgað stórfé fyrir skoðun á bílnum þar sem úrskurðað var að ekkert væri að, þegar auðheyrt væri á hljóðinu að eitthvað væri byrjað að gefa sig. Hefði e.t.v. verið betra að borga aðeins meira og fá eitthvað viðgert. Og þá bara birtist maður sem vill selja mér heilan bíl í varahluti fyrir lítið fé!!! Ég hló svo mikið að ég gleymdi næstum tannpínunni. Þegar ég var búin að jafna mig eftir meðferðina hjá tannlækninum hringdi ég í manninn og komst að því að hann hafði elt mig nokkuð lengi. Honum fannst ómögulegt að henda svona heillegum bíl, en það helsta sem var að skildist mér vera það hann var búinn að týna bíllyklunum! Og nú var hann að svipast um eftir einhverjum sem ætti svona bíl, í þeirri von að hann gæti nýst í varahluti. Ég var sú heppna. Bíllinn er meira að segja eins á litinn og sama árgerð. Næstum því tvíburar. Við fórum að skoða hann á heimleiðinni og niðurstaðan var sú að maðurinn ætlar að leita betur að lyklunum. Hlutir týnast greinilega víðar en í Langagerði.

Það sem er týnt hjá mér er:

Teikningin af íbúðarhúsinu

Tveir hamrar með gulu skafti

Kústur með járnbursta - eða svoleiðis, til að kústa burt ryð

Hluti af borðsöginni

Hugsanlega eitthvað fleira sem ég man ekki eftir

Ef einhver hefur fengið eitthvað af þessu lánað og gleymt að skila því, er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband. Leit stendur yfir. Góða nótt.

 

 


Leiðindafærsla - Reiðhjólaraunir

Sonur minn ákvað það í vor að kaupa sér gott reiðhjól fyrir hluta af fermingarpeningunum sínum. Það leist mér vel á, og einhvern tímann snemmsumars eftir nákvæma netrannsókn var ákveðið að drífa sig að Selfossi og kaupa hjól í ónefndri búð þar í bæ. Drengurinn veit hvað hann vill og keypti dýrt og fínt hjól að því er virtist, af sömu tegund og hann fékk síðast á þessum stað. Hann byrjaði strax að hjóla þegar heim kom, en fann fljótt að það þurfti að stilla gírana. Hann er vanur maður, svo hann dreif bara í því, en stillingin hélt ekki. Þetta olli miklum pirringi, svo fljótlega gerði ég mér aðra ferð að Selfossi til að innheimta ókeypis stillingu sem fylgdi með hjólinu. Það var gert með glöðu geði, og gerðu búðarmenn lítið úr þekkingu drengsins á þessum málum. Réttur maður skyldi stilla hjólið, og þá mundi allt lagast. Þegar heim kom var byrjað að hjóla, en allt fór á sama veg. Stillingin hélt í tvo tíma, svo tók hjólið uppá því að skipta sjálft um gíra. Nú var drengurinn orðinn verulega pirraður. Svo það var lagt í þriðju ferðina á Grána gamla með hjólið innanborðs. Ekki vildum við þurfa að taka hjólið sundur til að troða því inní minni bíl, því við vitum að ábyrgð á það á hættu að falla úr gildi við slíkar aðgerðir. Nú var hjólið skilið eftir til nánari rannsóknar. Viku seinna var það tilbúið, kom í ljós að það hafði verið gallað og þurfti að skipta um eitthvað. Þá fór Gráni fjórðu ferðina í þessa búð á þessu sumri að sækja hjólið. Þegar heim kom var strax byrjað að hjóla, og vonbrigðin voru mikil. Það brakaði í hjólinu eins og gömlu drasli. Nú vildi drengurinn helst skila hjólinu og fá nýtt. Ég hringdi í búðina, lýsti brakinu og viðbrögðum drengsins. Nei! Hann fær ekki nýtt hjól. Ég á allt í þetta , sagði maðurinn og vildi fá hjólið til skoðunar enn eina ferðina. Svo í dag var lagt af stað á Grána fimmtu ferðina að Selfossi. Konan í búðinni var mjög elskuleg og lofaði að ef hjólið yrði ekki lagað áður en dagurinn rynni á enda fengjum við það endurgreitt. Hún sagðist ekki eiga annað eins.  Þetta þótti mér sanngjarnt og svo var haldið til Reykjavíkur að heimsækja tannlækni og gamla frænku. Þegar við komum til baka að Selfossi var viðgerðamaðurinn ekki í góðu skapi. Hann sagði að ekkert hefði verið að hjólinu annað en það að gjörðin var illa fest á. Hélt hann því fram að drengurinn hefði tekið hjólið sundur og ekki sett nógu vel saman aftur. Markús tók hjólið ekki sundur. Það gerði maðurinn í búðinni og reyndi svo að koma sökinni á okkur. Fór hann svo að tuða um það að hann væri búinn að stórtapa á þessu hjóli og eyða tveimur tímum í að skipta um hluti á því. Ég benti honum á það ég væri ekki ánægð yfir því að vera búin að aka fjórar ferðir aukalega. Þá hló hann bara og sagði að ég hefði nú ekki verið að fara aukaferð í dag!!! Þegar hér var komið sögu var ég orðin verulega reið. Og til að kóróna ósköpin hreytti hann í okkur að ef við yrðum ekki ánægð núna fengjum við hjólið endurgreitt og síðan mundi hann aldrei aftur selja okkur hjól!!! HaHaHa!!! Þetta var þriðja hjólið sem við kaupum í þessari búð, og það síðasta. Konan sem er andlit búðarinnar er mjög elskuleg, og ég mundi hiklaust kaupa hjól af henni. En hún þarf að passa betur að manngarmurinn sem hún geymir á bakvið sleppi ekki fram að tala við viðskiptavinina. Vinur minn sem var með mér og hefur fylgst með málinu frá byrjun var alveg stórhneykslaður og hann ætlar heldur ekki að versla þarna aftur. Það er ekkert gaman eftir svona þrautagöngu að vera síðan ásökuð um að ljúga ofaná allt saman. Jú, e.t.v hefði ég farið til Reykjavíkur til tannlæknis hvort sem var innan skamms, en ekki á Grána sem eyðir næstum helmingi meira bensíni en hinn bíllinn. Ég hefði þó líklega fyrst leitað til tannlæknis í heimahéraði, því ég var með tannpínu og hafði engan sérlegan áhuga á því að aka 200 kílómetra - nema vegna þess að drenginn langaði að fá hjólið sitt í lag fyrir helgina. Þetta voru fjórar ferðir aukalega á Grána, vegna gallaðs hjóls og flónsku viðgerðamannsins. Og við tókum hjólið aldrei í sundur. Og hananú!


Vinna í boði!

Fékk eftirfarandi auglýsingu í e-mail frá henni Höllu Rut, bloggara sem ég þekki ekki neitt, en hún er greinilega manneskja sem vert er að þekkja. Hún bað um að þetta yrði birt:

Elísabet Sigmarsdóttir er fædd með sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast Encephalocele. Hún er sú eina á landinu sem hefur lifað hann af hingað til. Afleiðingar hans eru ýmsar. Henni fer stöðugt aftur og er í dag í hjólastól. Elísabet er búin að fara í u.þ.b. 60 aðgerðir. Oft var henni ekki hugað líf en er í dag lífsglöð og bjartsýn ung kona þrátt fyrir alla þá þröskulda sem lífið hefur sett henni.

Elísabet leitar nú eftir stuðningsmanneskju eða liðsveislu, eins og það er kallað. Liðsmaður er hugsaður sem félagslegur stuðningur og er um 16 tíma á mánuði að ræða. Er það samkomulagsatriði á milli Elísabetar og þess sem stuðninginn veitir hvernig þessum tíma er varðveitt og hvenær. 

Það er í raun Reykjavíkurborg sem á að útvega stuðningsmanneskju en þeim hefur ekki tekist það og hefur Elísabet verið án þessarar þjónustu í 7 mánuði.  Engin vilji er þar á bæ til að ganga lengra til að bjarga málunum. Þetta fellur ekki undir forgangsröð borgaryfirvalda. Það vitum við öll.  Þetta skiptir hinsvegar öllu máli fyrir tilveru Elísabetar Sigmarsdóttur.

Viðkomandi hlýtur laun fyrir en samt óskum við eftir manneskju sem hefur áhuga á því að láta gott af sér leiða og gefa nærveru sína og félagsskap til þessarar fallegur og hugrökku vinkonu minnar.

Ef þú hefur tök á því og tíma, gerðu þá góðverk. Ef þú hefur verið að hugsa í mörg ár að þú ættir kannski að gefa eitthvað til baka þá er núna tækifærið.

Síminn hjá Elísabetu er: 587 - 6278 og netfangið: liso@internet.is eða þú getur sent mér (Halla Rut) E-mail: halla@kjosehf.is ef þú vilt frekari upplýsingar.

Ég hér bið ykkur öll um að birta þetta á ykkar síðu sem færslu ef þið sjáið ykkur það fært.

Og svo er bara líka "nice" að senda henni kveðju: Elísabet.

Með samhug og kærleik

Halla Rut


Lost

an important paper - for the second time! It was lost last year too, but then it was found and put in an obvious place - people remember seeing it there - so I know I'm not imagining it was ever found. It is only important to me, so I don't think it was stolen. It is a big roll, so it should be easy to find - but it escapes me. I must have put it in a very, very, very good place. I looked everywhere, also in the most unlikely places. In the process I found some other lost things and wiped some dust. Old people would have said that the elves took it. But I don't keep elves.

Vatnslaust!

Eina ferðina enn! Þetta er orðið dáldið pirrandi. Vélar og kranar loksins búin að jafna sig eftir loftið og sandinn sem fylgdi síðasta vatnsleysi. Það var í vor. Þá var vatnið stundum í þykkara lagi - og brúnt. Nú er það þó orðið hreint, en næstum búið aftur. Ekki hægt að fara í bað eða nota þvottavélar. Ekki hægt að baða hundinn. Eins gott að nautin séu farin að sofa, þá taka þau ekki eftir vatnsskortinum fyrr en á morgun. Óvíst hvenær hægt verður að vökva í gróðurhúsinu næst. Úff. Ástandið hérna er orðið eins og var á miðri tuttugustu öld, um það leyti sem ég fæddist. Vatn og rafmagn mjög óstöðugt og ruslahirðing bara aðra hverja viku! Mikil afturför. Tölvan virkar þó ennþá, svo það er hægt að blogga á meðan maður skrælnar. Nágrannarnir eru vinsamlegast beðnir að bruðla ekki með vatnið!

Café Eldstó

Lærði að afgreiða kaffi í Eldstó í dag á meðan Viðar puðaði í málningarvinnu í stofunni heima. Gott að vera í burtu þegar allt er á öðrum endanum. Eldhúsið lítur reyndar orðið vel út og stofan verður orðin góð þegar líður á vikuna. Nenni ekki mikið að elda heima meðan á þessum framkvæmdum stendur. Ýmsir veitingastaðir hafa verið prófaðir undanfarna daga. Ber þá fyrst að nefna Eldstóna, þar fást mjög góðar súpur, heimabakað brauð og annað góðgæti. Mæli með því. Eina hættan er að G. Helga ráði mann í vinnu. Ég lenti í því. En það verður vonandi bara gaman. Í kvöld var farið á Hótel Rangá. Þar fékkst besti lax sem ég hef bragðað í langan tíma - eða ever. En þar getur maður ekki leyft sér að borða nema mjög sjaldan - það var ekki ódýrt. En laxinn var þess virði.

Pabbi

hefði orðið áttræður í dag. Í tilefni af því var slakað á, farið í kirkjugarðinn, gönguferð að Tumastöðum og ökuferð um Þveráraura með Gróu sem leiðsögumann. Nenni ekki að blogga meira núna.

Búin að grunna

og fer bráðum að hengja upp hurðirnar. Notalegt að mála þær og hlusta á Bach í leiðinni. Að frátöldu þessu brambolti í eldhúsinu gengur lífið sinn vanagang - nema ruslahirðingin. Þegar ég var barn var til siðs að arka með ruslið á afvikinn stað og kveikja í því - mér til mikillar skemmtunar - yfirleitt - nema þegar ljósaperan sprakk og lenti á nefinu á mér, en það er önnur saga. Nú má ekki lengur brenna rusli úti í móa. Í fjöldamörg ár hafa starfsmenn hreppsins sótt ruslið mitt samviskusamlega einu sinni í viku. Þeir hafa ekkert kvartað yfir því þótt grimmi hundurinn minn taki illa á móti þeim í hvert sinn og stundum hafa þeir tekið aukarusl, þótt skammturinn eigi bara að vera einn poki. Þetta fannst mér góð þjónusta. Og þeir notuðu venjulegan, lítinn pallbíl, svo maður hrökk ekki upp með andfælum þegar þeir komu - nema Lappi auðvitað. Í morgun var þetta allt breytt. Heljarstór trukkur frá Gámaþjónustunni silaðist upp heimreiðina og það rifjaðist upp fyrir mér að í fyrri viku hafði mér verið skömmtuð ný ruslatunna. (Ég er svo vanaföst að ég hélt bara áfram að nota mínar gömlu). Ég rauk út til að taka á móti nýja ruslahirðinum - maður veit aldrei, e.t.v. væri hann hræddur við hunda og e.t.v. vissi hann ekki hvar ruslið væri - svo ég handsamaði hundinn og lét færa til traktor svo ofurtrukkurinn gæti snúið við. Nýi ruslahirðirinn var ekki í góðu skapi. Hann kvartaði yfir því að hér væri of lítið pláss til að snúa við. Svo höfðu trjágreinar rekist í bílinn hans. Verður að gjöra svo vel að klippa þessar hríslur, þær rispa bílinn! OK. Ég benti honum á gömlu góðu ruslatunnurnar mínar og sagði að pokarnir væru tveir í dag. Hann umturnaðist. Tek bara einn poka! Ég góndi á risatrukkinn og manninn til skiptist og trúði ekki mínum eigin eyrum. Þegar hann sá undrunarsvipinn á mér blíðkaðist hann örlítið og sagðist mundu taka tvo í dag, en aldrei aftur! Takk. Ég skutlaði öðrum pokanum á bílinn, en hann fór að bisa við hinn. Sá hékk nefnilega í fínu græjunni sem heldur ruslapokanum uppi í tunnunni. Þá umturnaðist manngarmurinn aftur. Hann mundi aldrei aftur hirða rusl úr tunnu með svona búnaði!!! Tunnan skyldi hengd á trukkinn á viðeigandi hátt o.s.frv. Síðan hóf hann að rífa grindina úr tunnunni á hinn fruntalegasta hátt. Þá var mér nóg boðið. Ég bað hann að gjöra svo vel að eyðileggja ekki tunnuna mína!!! Svo tilkynnti ég honum að mér fyndist þessi þjónusta heldur afturför! Kom þá í ljós að við vorum alveg sammála. Hann hafði farið á nokkra bæi og ýmist ekki fundið neina tunnu eða þá þær voru tómar. Og hvað halda menn að þessi vitleysisgangur kosti nú þegar eldsneytisverð er í hámarki? Hann var mjög pirraður - og það skil ég vel.  Má ég þá frekar biðja um mína menn á pallbílnum. Skil ekki alveg tilganginn með þessari breytingu - senda risatrukk heim á hvern bæ til þess að spara plastpoka - eða hvað???

Cleaning

and painting coming up. Emptied all the junk out of the kitchen today and put Viðar to work. He dressed for toxic warfare and cleaned all the kitchen-cabinets-doors and prepared for paintwork. I have been looking forward to this event for years. Finally it is happening!

Hætt í leikskólanum

Það var erfitt að byrja að vinna í leikskólanum í september. Læra öll nöfnin og sérþarfirnar, reglur, boð og bönn. Svo vandist þetta og var eiginlega bara orðið ágætt um það leyti sem ég ákvað að hætta. Síðasti dagurinn var í dag og ég var búin að hlakka til að komast í sumarfrí, en mig hafði aldrei órað fyrir að þessi dagur yrði svona erfiður. Börnin voru búin að búa til risastórt kort handa mér í kveðjuskyni sem þau afhentu við fremur hátíðlega athöfn (rétt eins og ég væri búin að vinna þarna í 30 ár!), ég veitti jarðarber, og allir fengu sérstakt kveðjuknús að skilnaði. Ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að ég átti eftir að sakna barnanna - mikið. Ég er eiginlega bara búin að vera með skeifu síðan ég kom heim. Og svo allar þessar ágætu samstarfskonur. Ég á eftir að sakna þeirra líka. Takk fyrir samstarfið, börn og starfsfólk á Leikskólanum Örk.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband