Færsluflokkur: Bloggar

Á ekki orð

yfir vitleysuna í henni Reykjavík! Mikið má maður þakka fyrir að búa ekki þar! Ég var sko mjög ánægð með Spaugstofuna um síðustu helgi. Skil ekkert í henni Ólínu að vera að þessu nöldri. Nimbus er algjörlega búinn að gera þessu máli góð skil. Vísa bara á hann.  Ég held að þá fyrst væri eitthvað að ef ekki mætti gera grín að þessum óskapagangi.

Í dag gat ég hangið í tölvunni, lesið blogg og horft á YouTube. Skemmtilegast var þetta:

http://www.youtube.com/watch?v=VmjGDBWZZFw

http://www.youtube.com/watch?v=vvlCu1_noTc&feature=user

http://www.youtube.com/watch?v=ifKKlhYF53w&feature=user


Þegar ég vaknaði

í morgun, leit ég út eins og hross. Ég er komin á þá skoðun að það sé mjög heilsuspillandi að vinna í leikskóla. Gef því samt einhverja daga í viðbót.


Að gefnu tilefni

og fyrir beiðni Péturs tilkynnist það hér með að næsta tilhleypingakvöld verður haldið heima hjá Pétri að Hagamel helmingi hundraðs (lesist fimmtíu) þann 29. nóvember næstkomandi. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, og nú geta fáir fundið sér þá afsökun að þeir séu uppteknir. Ég þekki engan nema Pétur sem skipuleggur sig svo langt fram í tímann.  Eða jú, kannski Agnes Löve. En hún er gengin út, svo það skiptir ekki máli. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um þessa uppákomu geta hringt í Pétur í síma 860 1955. Þeir sem vilja kaupa Orðabók Péturs geta haft samband við Kristilegt félag heilbrigðisstétta. Veit ekki símann hjá þeim, svo ég mundi bara hringja í Pétur. Þeir sem vilja ganga í Óháða söfnuðinn ættu líka að hafa samband við Pétur. Hann hefur ekki tíma til að blogga sjálfur, svo þessu er komið á framfæri hér.

Tileinkað Rósu.

Birt án ábyrgðar þar til Pétur hefur lesið yfir.


Endurtekið efni

Fór í Iðnó í gær að sjá La traviata með Óperu Skagafjarðar - aftur! Alexandra Chernyshova var frábær - aftur. Mikil dæmalaus lukka fyrir okkur Íslendinga að hún skyldi verða svona ástfangin af þessum dáðadreng frá Hofsósi - eða Keflavík - eða hvernigsemþaðnúvar. Hann var líka til sýnis í gær, og lítur bara út fyrir að vera venjulegur gaur...  Ég hlakka mikið til að sjá Rigoletto. Það ku verða næsta verkefni hjá þeim.

Það var líka farið í Fíladelfíu í leiðinni. Þar var allt með frekar venjulegum hætti og gott að koma. Eitthvað var rætt um það að sumir sætu heima að horfa á íþróttir. Þeir töpuðu örugglega. Mikið þyrfti ég að vera langt leidd af leiðindum til að sitja og horfa á íþróttir.

Milli atriða var elskulegur fylgdarsveinninn svo höfðinglegur að bjóða mér út að borða á Þrjá frakka, og maturinn þar klikkar aldrei. Allur dagurinn var því eins og sunnudagar gerast bestir, veðrið frábært og allir ánægðir.

Í dag

snerist svo allt um það að reyna að koma fylgdarsveininum heim til sín. Það hafðist fyrir rest að koma honum í Herjólf,  en á meðan hann beið var honum boðið uppá líkamsrækt í fjósinu (þ.e.a.s. heymokstur). Væntanlega hefur vistin í Herjólfi ekki verið skemmtileg í kvöld. En Gráni er þiðnaður.

Dagbók 17. janúar

Fékk í dag nokkuð undarlegan keðju-tölvupóst frá vinkonu minni. Við fyrstu sýn leit út fyrir að ég hefði unnið í fegurðarsamkeppni. En við nánari athugun kom í ljós að sú hótun fylgdi með að ef ég sliti keðjuna þá ætti ég stórlega á hættu að verða ljót það sem eftir væri ævinnar! Ekki vildi ég taka þá áhættu, svo ég greip til þeirra ráða sem mælt var með og hóf að tína saman tíu fegurðardísir af tölvupóstlistanum mínum. Þangað skyldi áframsenda póstinn. Þá versnaði í því. Eftir að bloggið hófst er ég svo löt að skrifa bréf, að það fundust ekki nema átta konur á listanum auk þeirrar sem sent hafði keðjubréfið! Heppni að þær skyldu allar vera glimrandi fallegar! Slatti af körlum er á listanum, en ég kunni ekki við að senda þeim þetta. Ég held að enginn þeirra hafi áhuga á að vinna í fegurðarsamkeppni. Eftir smáumhugsun mundi ég eftir tveimur góðum kandidötum í viðbót sem ég kunni netföngin hjá, og hélt þar með að ég væri sloppin. En ekki aldeilis! Eitt netfangið var þá úrelt. SMS var þá sent í snatri til að bjarga einu í viðbót - en þá þurfti ég að fara út í bílaleik. Í gær var svo mikið eldingaveður að eitthvað fór úrskeiðis í rafmagninu og ekkert rafmagn er í fjósinu. Svo kom rafvirkinn, en þá var enginn heima nema grimmi varðhundurinn, svo hann komst ekki út úr bílnum og hvarf á braut við svo búið. Þegar fjósamaðurinn kom var sumsé ennþá ljóslaust í fjósinu og ég í miðjum klíðum að reyna að forðast ljótleikann. Þá fékk ég þá snjöllu hugmynd að aka Grána gamla upp að fjósinu og lýsa inn. Fyrst þurfti að moka hann upp úr snjónum. Það er óvenjulegt hér á bæ. Svo var ekið útá tún, en kom þá í ljós að fjórhjóladrifið var ekki að virka, svo Gráni sat fljótlega fastur þar. Og situr enn. Þar verður hann líklega að bíða vors. Sem kemur vonandi innan tveggja vikna, eða svo. Vonandi verð ég þá ennþá falleg.

Geisp

,,It's because you don't go to sleep - You don't go to sleep - You fall asleep!" sagði ein ágæt vinkona mín um daginn - ekki við mig samt! Ég hefði þó alveg átt það skilið. Mikil viska.


Nöldur

er hins vegar alveg upplagt bloggefni. Nimbus bloggvinur minn er alveg sérfræðingur í því. Stórskemmtilegt. Vísast þar sérstaklega í færslur hans um jólaljós og frú Clinton.

Einu sinni bjó ég með Bandaríkjamanni. Hann byrjaði hvern dag á því að spyrja: ,,Any earthquakes? Any eruptions? Have they shot Clinton yet?"

I can only imagine what he would have said about the present situation.


Flensupest

Lítið hægt að gera nema skoða blogg, tala í síma og sofa. G-fræ er líka með flensu. Talaði við hana í dag. Ég er ekki vön að vera veik svona marga daga í einu. Þetta er að verða þreytandi. Mér er ekki að batna. Fyndið í skaupinu þetta með landsþing bloggara! Fannst ykkur það ekki? Nú hef ég ekkert að segja, en held samt áfram að skrifa af því að mér leiðist svo mikið. Allir farnir að sofa - nema náttúrlega bloggarar. Nátt-bloggarar. Ég nenni ekki að hafa þras á mínu bloggi. Það er bannað hér. Ég er kristin, og ef einhver vill ræða kristindóm við mig, þá getur hann sent mér tölvupóst á goodster@hive.is Ég á fullt af kristnum bloggvinum sem bjóða uppá opinbert þras, og vísast hér með á þá, fyrir þá sem það vilja. Mér finnst bara gaman að þrasa við einn í einu. Annars verður það svo ómarkvisst. Eins og í kennslunni. Mér finnst gaman að kenna einum í einu. Eins og í tónlistarkennslu. Ég er ekki hópsál. Mér finnst gaman að skrifa bréf. Einu sinni átti ég fullt af pennavinum. Nú er blogg. Það er eiginlega meira spennandi. Kannski á maður bloggvini sem maður veit ekkert um! Ekki skilja allir eftir skilaboð. Þessi færsla er orðin nógu löng - og leiðinleg.


Afmæli nálgast

Hundfúlt að eiga afmæli rétt á eftir jólunum. Skil ekki hvernig ég gat gleymt að hugsa útí það þegar ég fjölgaði mannkyninu fyrir þrettán árum. Ég nennti ekki að baka fyrir jólin, svo nú á ég uppsafnaða bökunarorku sem fær útrás á morgun. Ég man ekki hverjum ég er búin að bjóða í heimsókn um helgina, en ég verð í viðbragðsstöðu á sunnudaginn, í þeirri von að einhver vilji gleðja mig með nærveru sinni þá. Svo verður afgangasamkvæmi á mánudagskvöldið.

Gleðilegt nýtt ár!

 

Áramótin sluppu fyrir horn. Það var svo mikið rok að flugeldarnir flugu lárétt. Markús lét það ekki á sig fá og dreif sig út á milli éljanna vopnaður sprengjum sem hann plataði ,,frænda" sinn að norðan til að gefa sér í jólagjöf. Frændinn og ég þurftum svo að standa og horfa á, en það kom ekki að sök, því við eigum svo góða kuldagalla.

Það var farið í Oddakirkju á gamlárskvöld, en lítið var um hátíðarguðsþjónustur á nýársdag. Ekki virðist lengur til siðs að bjóða upp á slíkt í þessu héraði. Tveir gestir komu hins vegar á nýársdag, þau töldu að við værum líklegust til að vera í standi til að taka á móti gestum á þessum degi, þar eð við mundum örugglega ekki þjást af þynnku eða öðrum bagalegum fylgifiskum áramóta. Við vorum mjög ánægð með að hafa orðið fyrir valinu, enda var ég búin að baka tvær kökur þegar hér var komið sögu. Var líka svo heppin að vera komin á fætur fyrir kaffi.

 

Fór til Reykjavíkur í gær í herlegheitasamkvæmi sem haldið var til heiðurs Guðnýju frænku minni. Þar voru veitingar með afbrigðum góðar, enda lögðust allir á eitt. Þegar á leið hófst upp söngur og var þá því líkast að komið væri inn á safnaðarsamkomu hvítsynninga fyrir fjörutíu árum. Það hlýjaði manni heldur betur um hjartaræturnar. Markús eignaðist nýjan vin á meðan. Hann er kallaður Bob. Þeir hafa mikinn áhuga á bifreiðum. Nú verður auðveldara að skipuleggja ferðina til Bretlands, því Bob ætlar að bjóða Markúsi í ökuferð á einhverju tryllitæki sem ég kann ekki að nefna.

 

Ég gladdist heldur betur áðan þegar ég komst að því að Rósa Aðalsteinsdóttir vinkona okkar er byrjuð að blogga. Ég hvet alla til að skoða síðuna hennar. Ég komst einnig að því að Ragnar frændi minn er bloggari. Hann er líka mikill merkismaður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband