1.8.2008 | 01:28
Leiðindafærsla - Reiðhjólaraunir
Sonur minn ákvað það í vor að kaupa sér gott reiðhjól fyrir hluta af fermingarpeningunum sínum. Það leist mér vel á, og einhvern tímann snemmsumars eftir nákvæma netrannsókn var ákveðið að drífa sig að Selfossi og kaupa hjól í ónefndri búð þar í bæ. Drengurinn veit hvað hann vill og keypti dýrt og fínt hjól að því er virtist, af sömu tegund og hann fékk síðast á þessum stað. Hann byrjaði strax að hjóla þegar heim kom, en fann fljótt að það þurfti að stilla gírana. Hann er vanur maður, svo hann dreif bara í því, en stillingin hélt ekki. Þetta olli miklum pirringi, svo fljótlega gerði ég mér aðra ferð að Selfossi til að innheimta ókeypis stillingu sem fylgdi með hjólinu. Það var gert með glöðu geði, og gerðu búðarmenn lítið úr þekkingu drengsins á þessum málum. Réttur maður skyldi stilla hjólið, og þá mundi allt lagast. Þegar heim kom var byrjað að hjóla, en allt fór á sama veg. Stillingin hélt í tvo tíma, svo tók hjólið uppá því að skipta sjálft um gíra. Nú var drengurinn orðinn verulega pirraður. Svo það var lagt í þriðju ferðina á Grána gamla með hjólið innanborðs. Ekki vildum við þurfa að taka hjólið sundur til að troða því inní minni bíl, því við vitum að ábyrgð á það á hættu að falla úr gildi við slíkar aðgerðir. Nú var hjólið skilið eftir til nánari rannsóknar. Viku seinna var það tilbúið, kom í ljós að það hafði verið gallað og þurfti að skipta um eitthvað. Þá fór Gráni fjórðu ferðina í þessa búð á þessu sumri að sækja hjólið. Þegar heim kom var strax byrjað að hjóla, og vonbrigðin voru mikil. Það brakaði í hjólinu eins og gömlu drasli. Nú vildi drengurinn helst skila hjólinu og fá nýtt. Ég hringdi í búðina, lýsti brakinu og viðbrögðum drengsins. Nei! Hann fær ekki nýtt hjól. Ég á allt í þetta , sagði maðurinn og vildi fá hjólið til skoðunar enn eina ferðina. Svo í dag var lagt af stað á Grána fimmtu ferðina að Selfossi. Konan í búðinni var mjög elskuleg og lofaði að ef hjólið yrði ekki lagað áður en dagurinn rynni á enda fengjum við það endurgreitt. Hún sagðist ekki eiga annað eins. Þetta þótti mér sanngjarnt og svo var haldið til Reykjavíkur að heimsækja tannlækni og gamla frænku. Þegar við komum til baka að Selfossi var viðgerðamaðurinn ekki í góðu skapi. Hann sagði að ekkert hefði verið að hjólinu annað en það að gjörðin var illa fest á. Hélt hann því fram að drengurinn hefði tekið hjólið sundur og ekki sett nógu vel saman aftur. Markús tók hjólið ekki sundur. Það gerði maðurinn í búðinni og reyndi svo að koma sökinni á okkur. Fór hann svo að tuða um það að hann væri búinn að stórtapa á þessu hjóli og eyða tveimur tímum í að skipta um hluti á því. Ég benti honum á það ég væri ekki ánægð yfir því að vera búin að aka fjórar ferðir aukalega. Þá hló hann bara og sagði að ég hefði nú ekki verið að fara aukaferð í dag!!! Þegar hér var komið sögu var ég orðin verulega reið. Og til að kóróna ósköpin hreytti hann í okkur að ef við yrðum ekki ánægð núna fengjum við hjólið endurgreitt og síðan mundi hann aldrei aftur selja okkur hjól!!! HaHaHa!!! Þetta var þriðja hjólið sem við kaupum í þessari búð, og það síðasta. Konan sem er andlit búðarinnar er mjög elskuleg, og ég mundi hiklaust kaupa hjól af henni. En hún þarf að passa betur að manngarmurinn sem hún geymir á bakvið sleppi ekki fram að tala við viðskiptavinina. Vinur minn sem var með mér og hefur fylgst með málinu frá byrjun var alveg stórhneykslaður og hann ætlar heldur ekki að versla þarna aftur. Það er ekkert gaman eftir svona þrautagöngu að vera síðan ásökuð um að ljúga ofaná allt saman. Jú, e.t.v hefði ég farið til Reykjavíkur til tannlæknis hvort sem var innan skamms, en ekki á Grána sem eyðir næstum helmingi meira bensíni en hinn bíllinn. Ég hefði þó líklega fyrst leitað til tannlæknis í heimahéraði, því ég var með tannpínu og hafði engan sérlegan áhuga á því að aka 200 kílómetra - nema vegna þess að drenginn langaði að fá hjólið sitt í lag fyrir helgina. Þetta voru fjórar ferðir aukalega á Grána, vegna gallaðs hjóls og flónsku viðgerðamannsins. Og við tókum hjólið aldrei í sundur. Og hananú!
Athugasemdir
Ofboðslega pirrandi þegar þjónustufólk vantar þjónustulund. Þið eigið auðvitað allan rétt á að fá hjólið almenninlegt. Ef það er ekki í fullkomnu standi núna, eigiði að fá það endurgreitt ásamt skaðabótum finnst mér. - Bensínpeningum og alles.
Laufey B Waage, 5.8.2008 kl. 09:50
Sæl og blessuð.
Ég tók ekki eftir þessari færslu fyrr en núna. Ofboðslega verð ég pirruð að lesa svona. Ég held að best væri að skila hjólinu til að gleyma þessum leiðindar minningum.
hvernig gengur með hjólið núna?
Guð veri með ykkur
Baráttukveðjur/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.8.2008 kl. 10:50
Takk fyrir þessar samúðarkveðjur, hjólið virðist virka vel eftir þessa síðustu aðgerð, en sökum óhóflegrar bílaumferðar um verslunarmannahelgina og síðan heyskapar hefur ekki unnist tími til að prófa það almennilega. Við vonum bara það besta! Það er a.m.k. örugglega í ábyrgð næstu tvö eða þrjú árin eða svo.
Guðrún Markúsdóttir, 7.8.2008 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.