10.1.2009 | 22:57
Afmæli
Sonurinn orðinn 14 ára!!! Ótrúlegt! Og ég ætla ekki að nefna hvað ég er orðin gömul. Mér finnst samt að ég sé yngri núna en fyrir tuttugu árum. Veit ekki af hverju. Um jólin lagði drengurinn undir sig hljómflutningstæki heimilisins - og flutti inní sitt herbergi. Gamli geislapilarinn minn var hættur að virka hjá mér, svo honum sýndist að ég hefði engin not fyrir þetta dót lengur. Brá þá svo við að allt virkaði vel undir hans stjórn. Sá ég þá mitt óvænna og fjárfesti í glænýjum heimabíógræjum á útsölu í Elko. Auðvitað jafnast þær ekki á við gamla dótið, enda tímdi ég ekki að eyða miklum peningum í þetta, vitandi að eldgamli magnarinn minn stendur vel fyrir sínu og hægt að fá ágæta hátalara á 300 krónur á notaða-dóts-markaðnum. Vildi það mér til happs þegar heim kom að nýju græjurnar skörtuðu bláum ljósum - einmitt í stíl við tölvu unglingsins og allt annað í hans herbergi!!! Vildi hann nú ólmur skipta og skila gamla dótinu mínu! Ég þráaðist við í þrjá daga, og lét hann suða, en í morgun lét ég eftir honum að skipta, (enda ekki snjallt að bíða þangað til hann áttaði sig á því að gömlu græjurnar væru í raun og veru betri!). Svo nú hef ég endurheimt græjurnar mínar, bætt við tveimur notaða-dóts-hátölurum, og geislaspilarinn lætur vel að stjórn, feginn að fá að spila almennilega tónlist í stað gaddavírsrokks - held ég. Hann virðist allavega hafa haft gott af því að nötra af hávaða í tvær vikur! Og allir eru ánægðir. Á morgun verður svo árlegt kökupartí.
Athugasemdir
Vildi að ég kæmist í kökupartíið, þær klikka aldrei kökurnar sem eru bornar á borð í Langagerði, þaðan af síður gestristnin og fjörið.
Aldur er afstæður, líkaminn eldist og hrörnar en innra með okkur öðlumst við dýrmæta reynslu sem fæst ekki nema með tímanum, ég er löngu hætt að agnúast út í aldur, aldur er vinur minn, heiður að fá að eldast.
Horfði í bíómynd um daginn þar sem Denis Quaid lék eitt af hlutverkunum og það var eins og ferskur blær að horfa á hann, af því að hann hefur leyft náttúrunni að hafa sinn veg, engin lýtaaðgerð sjáanleg, augun á réttum stað, eðlilegar hrukkur á enni og gagnaugum, vá, unaðslegt, já, og hálsinn, hrukkur á hálsinum sem voru í stíl við aldrað andlitið.
Ekki spyrja mig hvernig þetta tengist unglingaafmælum...
Bestu kveðjur
Guðný Einars.
Guðný Einars (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 09:36
Til hamingju með drenginn.
Laufey B Waage, 13.1.2009 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.