21.8.2008 | 01:48
Alltaf
þegar ég fer til Guðmundar tannlæknis þá er veður með eindæmum gott, brakandi sól og hiti. Þetta hefur alltaf pirrað mig, því mér finnst sóun að fara til Reykjavíkur í góðu veðri á sumrin. Kveður svo rammt að þessum örlögum að tannlæknirinn er farinn að vorkenna mér. Nú í vikunni átti ég pantaðan tíma, þann þriðja á þessu sumri, og þá var Guðmundi nóg boðið. Hann hringdi um morguninn og bauð mér að sitja heima og njóta góða veðursins, en koma í næstu viku í staðinn!!! Ég spurði hvort hann væri að grínast, en það var víst ekki. Ekki kvaðst hann heldur vera að reyna að losna við mig. Þetta tilboð var sprottið af tómri manngæsku. Því miður var ég búin að skipuleggja svo margt annað í höfuðstaðnum þennan dag að ég lét mig hafa það að fara. Guðmundur lét þau orð falla að hann vildi helst bóka mig á hverjum degi út mánuðinn! Ég féllst á að koma einn dag í næstu viku, en nú ætlum við að storka örlögunum og ég fæ að velja daginn og panta að morgni samdægurs - þá verður vísast vont veður fyrri partinn, en síðan mun væntanlega skella á rjómablíða!
Athugasemdir
Mér finnst þú ættir að fórna þér fyrir fjöldann og bóka sem flesta tíma hjá tannsa.
Laufey B Waage, 21.8.2008 kl. 11:28
Sæl fræið mitt.
Nei ekki gera það því þá verð ég alltaf í þoku og leiðindum.
Vertu Guði falin
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.8.2008 kl. 11:53
Til að forðast tannlækna (nema þeir séu skyldir manni) þá burstar maður tennurnar oftar. Mjög ódýr og góð leið. Nógu dýrt er nú að fara til tannlæknis þótt ekki bætist bensínkostnaðurinn við á þessum síðustu og verstu......
En talandi um tennur. Um síðustu helgi birtust skelfilegar myndir í sjónvarpinu af hrikalega skemmdum tönnum í börnum, ég hef bara aldrei séð annað eins. Það eitt og út af fyrir sig var slæmt, EN ég furðaði mig ekki síður á umræðunni í kjölfarið um mikilvægi þess að íslenska ríkið greiddi niður tannlækningar hjá börnum. Fyrirgefið þið. Er ekki skynsamlegra að byrja á að hvetja foreldra til að bursta tennurnar í börnunum sínum? Hver ber ábyrgð á ónýtum tönnum í 2. ára barni? Kannski þetta verði tekið upp á leikskólunum, að bursta tennurnar. Óvitlaust.
Dögg Harðar (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 22:47
Ég bursta stundum tennurnar... Samt fer ég alltaf einu sinni á ári til tannlæknis í eftirlit, en það er bara af því að Guðmundur Lárusson er svo skemmtilegur. Og þá hefur það alltaf verið þessi eini góðviðrisdagur ársins. Í sumar fékk ég hins vegar tannpínu í fyrsta skipti á ævinni og þurfti að fara oftar - og hvað haldiði! Skellur á besta sumar í manna minnum!!!
Guðrún Markúsdóttir, 23.8.2008 kl. 00:03
Glitter Get Well Soon Graphics
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.8.2008 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.