Ættarmót

í gangi á Kirkjubæjarklaustri, og ég ætti að vera þar. En þegar ég átti bara eftir að fara í bað, vökva í gróðurhúsinu og þvo gulræturnar sem áttu að vera í súpunni, sem ég átti að elda á Klaustri, þá kom í ljós að það var VATNSLAUST enn einu sinni. Þá fór ég á taugum. Í gær var líka vatnslaust, og þá var mér talin trú um að þetta væri innanússvandamál, allir aðrir hefðu vatn. Svo það voru sendir tveir fílefldir pípulagningarmenn til að skipta um inntakskrana og blása í rörið, og eftir langa mæðu kom vatn. Í dag ákvað ég að hringja beint í sveitarstjórann, því verndarengillinn Böðvar, sem hefur vakað yfir okkur daga og nætur og séð til þess í allt sumar að eitthvað komi úr krönunum á hverjum degi, hann er farinn í frí. Eftir það hefur allt farið á hinn verri veg. Sveitarstjórinn var ekki við, svo ég talaði við ónefndan aðila, sem hélt því enn fram að þetta væri bara mitt vandamál, allir aðrir hefðu vatn! Því til sönnunar sagði hann að Gústi (nágranni minn sem býr uppi á hól) væri örugglega búinn að láta í sér heyra ef það væri vatnslaust. Ég spurði þá hvort það gæti ekki verið að hann væri að heiman í dag? - Hann var heima í morgun! var svarið. Eftir þetta samtal ákvað ég að hringja í nágrannann á hólnum og viti menn! Þar var algerlega vatnslaust og hafði verið síðan snemma í morgun. Gústi hafði hringt strax í morgun og kvartað við ónefnda aðilann, en ekkert hafði verið að gert. Við þessar fréttir varð ég frekar reið, svo ég hringdi aftur á skrifstofu sveitarstjórans og úthellti skömmum yfir vesalings konuna sem svaraði í símann. Enginn ráðamaður var við, sveitarstjórinn bara farinn í helgarfrí! Nú er þolinmæði mín á þrotum. Eitthvað varanlegt verður að gera!!! Ég gat ekki hugsað mér að fara grútskítug í skemmtiferð frá skrælnuðu gróðurhúsi og þyrstum nautgripum, svo ég sit enn heima. Vatnið kom reyndar fljótt eftir að skömmunum var úthellt, en þá var ég komin í tímaþröng. Af þessum sökum var ekki elduð Langagerðissúpa á Klaustri í kvöld. En ég tel víst að frænkurnar hafi bjargað þessu fyrir horn. Ég held að ég sé nú búin að klikka á öllu sem ég átti að gera í sambandi við þetta ættarmót. Einn tölvupóstur komst ekki til skila, sem varð til þess að heill ættleggur situr heima - það átti ég að sjá um, en klúðraði rækilega, auðvitað átti ég að hringja og gá hvort pósturinn hefði komist til skila. Geri það næst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð Guðrún fræ.

Ja hérna nú hérna. Þetta er alveg ömurlegt. Gústi var heima og búinn að hringja en samt sagði starfsmaðurinn að hann væri ekki búinn að hringja. Leitt með ættarmótið. Það hefði verið svo gaman fyrir þig að fara á Klaustur og hitta ættingjana þína.

Vona að það verði gert átak í að laga vatnskerfið. Þetta gengur ekki.

Ef þér vantar hjálp að lemja þessa karla þá býð ég mig fram.

Guð veri með þér að berjast við þessa töffara.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.8.2008 kl. 10:26

2 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Ég held að við viljum ekki lemja ónefnda manninn, hann er orðinn gamall og hefur e.t.v. bara gleymt að hella uppá okkur - og gleymt að hann gleymdi því. Svo er hann líka hálf-heyrnarlaus, svo hann hefur e.t.v. ekkert heyrt í Gústa!!!! Við höfum hingað til álitið þetta vera heiðarlegan mann. Ég missti ekki af ættarmótinu, ég fór í gær og kom aftur í dag, missti bara af föstudagskvöldinu. En auðvitað þarf að gera eitthvað. Ég held að næsta skref sé að skrifa bréf.

Guðrún Markúsdóttir, 17.8.2008 kl. 19:02

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

    

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.8.2008 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband