18.6.2008 | 21:13
Búin að grunna
og fer bráðum að hengja upp hurðirnar. Notalegt að mála þær og hlusta á Bach í leiðinni. Að frátöldu þessu brambolti í eldhúsinu gengur lífið sinn vanagang - nema ruslahirðingin. Þegar ég var barn var til siðs að arka með ruslið á afvikinn stað og kveikja í því - mér til mikillar skemmtunar - yfirleitt - nema þegar ljósaperan sprakk og lenti á nefinu á mér, en það er önnur saga. Nú má ekki lengur brenna rusli úti í móa. Í fjöldamörg ár hafa starfsmenn hreppsins sótt ruslið mitt samviskusamlega einu sinni í viku. Þeir hafa ekkert kvartað yfir því þótt grimmi hundurinn minn taki illa á móti þeim í hvert sinn og stundum hafa þeir tekið aukarusl, þótt skammturinn eigi bara að vera einn poki. Þetta fannst mér góð þjónusta. Og þeir notuðu venjulegan, lítinn pallbíl, svo maður hrökk ekki upp með andfælum þegar þeir komu - nema Lappi auðvitað. Í morgun var þetta allt breytt. Heljarstór trukkur frá Gámaþjónustunni silaðist upp heimreiðina og það rifjaðist upp fyrir mér að í fyrri viku hafði mér verið skömmtuð ný ruslatunna. (Ég er svo vanaföst að ég hélt bara áfram að nota mínar gömlu). Ég rauk út til að taka á móti nýja ruslahirðinum - maður veit aldrei, e.t.v. væri hann hræddur við hunda og e.t.v. vissi hann ekki hvar ruslið væri - svo ég handsamaði hundinn og lét færa til traktor svo ofurtrukkurinn gæti snúið við. Nýi ruslahirðirinn var ekki í góðu skapi. Hann kvartaði yfir því að hér væri of lítið pláss til að snúa við. Svo höfðu trjágreinar rekist í bílinn hans. Verður að gjöra svo vel að klippa þessar hríslur, þær rispa bílinn! OK. Ég benti honum á gömlu góðu ruslatunnurnar mínar og sagði að pokarnir væru tveir í dag. Hann umturnaðist. Tek bara einn poka! Ég góndi á risatrukkinn og manninn til skiptist og trúði ekki mínum eigin eyrum. Þegar hann sá undrunarsvipinn á mér blíðkaðist hann örlítið og sagðist mundu taka tvo í dag, en aldrei aftur! Takk. Ég skutlaði öðrum pokanum á bílinn, en hann fór að bisa við hinn. Sá hékk nefnilega í fínu græjunni sem heldur ruslapokanum uppi í tunnunni. Þá umturnaðist manngarmurinn aftur. Hann mundi aldrei aftur hirða rusl úr tunnu með svona búnaði!!! Tunnan skyldi hengd á trukkinn á viðeigandi hátt o.s.frv. Síðan hóf hann að rífa grindina úr tunnunni á hinn fruntalegasta hátt. Þá var mér nóg boðið. Ég bað hann að gjöra svo vel að eyðileggja ekki tunnuna mína!!! Svo tilkynnti ég honum að mér fyndist þessi þjónusta heldur afturför! Kom þá í ljós að við vorum alveg sammála. Hann hafði farið á nokkra bæi og ýmist ekki fundið neina tunnu eða þá þær voru tómar. Og hvað halda menn að þessi vitleysisgangur kosti nú þegar eldsneytisverð er í hámarki? Hann var mjög pirraður - og það skil ég vel. Má ég þá frekar biðja um mína menn á pallbílnum. Skil ekki alveg tilganginn með þessari breytingu - senda risatrukk heim á hvern bæ til þess að spara plastpoka - eða hvað???
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Geturðu ekki talað við sveitarfélagsyfirvöld, og beðið um gamla góða pallbílinn með gömlu þjónustunni aftur? Rökstutt það m.a. með eldneytissparnaði.
Annars mundi ég ekki vilja vera ruslahirðir hjá fólki sem á grimma hunda. Ekki heldur hjá þeim sem eiga elskulega hunda sem flaðra upp um mann og sleikja í elskulegheitum sínum.
Laufey B Waage, 20.6.2008 kl. 09:38
Einmitt, það eru ekki allir sem elska hunda, og ekki á allra færi að hirða rusl, svo vel sé! Ef ég fæ ekki mína menn aftur reikna ég með að sjá um mín ruslamál sjálf hér eftir.
Guðrún Markúsdóttir, 20.6.2008 kl. 14:42
Sæl og blessuð.
Hressileg færsla. Blessaður karlinn, vonandi les hann bloggið þitt. Kannski verður hann skapbetri næst þegar hann heimsækir þig.
Þú ert búin að vera dugleg að blogga á meðan ég var í Reykjavíkurborg.
Guð veri með þér.
Kær kveðja/Rósa.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.6.2008 kl. 01:04
Velkomin aftur Rósa! Ég var farin að undrast um þig.
Guðrún Markúsdóttir, 23.6.2008 kl. 15:15
Sæl Guðrún mín.
Þú getur séð hvað ég var að dandalast á blogginu mínu. Og einnig hef ég sent þér bréf. Hörku skýrsla þar á ferð
Guð veri með þér kæra vinkona.
Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.6.2008 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.