16.5.2008 | 19:27
Tónlistarnám!
Það tilkynnist hér með að ég hef sagt upp stöðu minni við Tónlistarskóla Rangæinga, frá og með 1. september. Þess í stað mun ég bjóða upp á kennslu í einkatímum fyrir þá sem það vilja. Ég kenni aðallega á píanó, fiðlu og hljómborð. Möguleiki væri einnig að kenna vinnukonugrip á gítar, ef einhver óskar þess, og jafnvel byrjendum á blokkflautu. Ég hef 14 ára reynslu í kennslu á píanó og 10 ára reynslu í fiðlukennslu.
Píanó
Ég get hugsað mér að taka nemendur frá fimm ára aldri í píanónám, en aldurshámark er ekkert. Píanó kenni ég a.m.k. til miðstigs. Kennt verður með hefðbundinni aðferð eftir kennslukrá og boðið uppá áfangapróf fyrir þá sem þess óska. Sjálf hef ég lokið 7. stigi í píanóleik.
Fiðla
Fiðlu kenni ég til grunnstigs, en býð sérstaklega velkomna mjög unga nemendur, því að ég mun beita kennsluaðferðum Suzukis. Þau fræði eru mjög áhugaverð. Suzuki nemendur geta byrjað þriggja ára og kenningin er sú að börn geti lært að leika á hljóðfæri á sama hátt og þau læra að tala. Það skal tekið fram að ég er ekki enn löggiltur Suzuki-kennari, en til að ná því markmiði þarf maður fyrst að fá nemendur til að æfa sig á! Þetta nám verður því ódýrara en gengur og gerist með Suzuki-nám. Ég mun aðstoða við útvegun á hljóðfærum, annað hvort til kaups eða leigu.
Hljómborð
Hljómborðsnám er upplagt fyrir fullorðna eða þá sem vilja bara læra að glamra eftir eyranu. Líka ef maður á ekki píanó - en vill undirbúa sig fyrir píanónám.
Skipulag
Kennsla hefst með haustinu, eftir því sem hverjum og einum hentar. Æskilegt er að ungir byrjendur komi tvisvar í viku. Þegar fiðlunemendur eru komnir dálítið af stað er hægt að bjóða uppá reglulega hóptíma. Þá stefni ég að því að fá hámenntaða kennara í heimsókn reglulega til að leiðbeina í hóptímum (a.m.k. tvisvar á vetri). Kennsla mun að jafnaði fara fram í Langagerði, og nemendur halda stofutónleika fyrir jól og að vori. Einnig mætti hugsa sér að fara í heimsóknir í leikskóla og dvalarheimili aldraðra til að afla nemendum reynslu í tónleikahaldi og gleðja aðra.
Þeir sem hafa áhuga á að skrá nemendur í tónlistarnám eða fá nánari upplýsingar sendi tölvupóst á goodster@hive.is eða hringi í síma 865 0311.
Athugið! Vinsamlegast sækið um fyrir 1. júní.
Athugasemdir
Sæl og blessuð.
Því miður verð ég að afþakka þessa góðu þjónustu.
Tónarnir ná þangað sem sólargeislarnir berast ekki.
Kær kveðja/Rósa.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.5.2008 kl. 20:12
Ég hef verið að hugsa til þín og óska þess að þú byggir aðeins vestar. Þá hefði ég frábært starf handa þér, hvort sem þú vildir fullt starf, mæta einn dag í viku, eða eitthvað þar á milli. En gangi þér vel í því sem þú hefur ákveðið. Það er alltaf gaman að útvíkka starfsframann, ekki síst sem tónlistarkennari.
Laufey B Waage, 17.5.2008 kl. 10:36
gangi þér bara alveg rosalega vel, og ég vona að sumarið framundan mun vera þér og þínum til mikillar blessunar.
kv
Linda, 18.5.2008 kl. 23:03
Ég þakka góðar kveðjur! Allmargir hafa sótt um, svo þetta lítur mjög vel út.
Guðrún Markúsdóttir, 25.5.2008 kl. 02:35
Ég var nú reyndar orðinn ansi sprækur að keyra austur á tímabili, taktu samt viljann fyrir verkið - þótt tónelskur sé. Þú býður okkur kannski samt í kaffi einhverntíman?
Ragnar Kristján Gestsson, 25.5.2008 kl. 22:24
Allir velkomnir í kaffi, jafnvel þótt þeir þiggi ekki tónlistarkennslu!
Guðrún Markúsdóttir, 26.5.2008 kl. 01:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.