Dagbók 17. janúar

Fékk í dag nokkuð undarlegan keðju-tölvupóst frá vinkonu minni. Við fyrstu sýn leit út fyrir að ég hefði unnið í fegurðarsamkeppni. En við nánari athugun kom í ljós að sú hótun fylgdi með að ef ég sliti keðjuna þá ætti ég stórlega á hættu að verða ljót það sem eftir væri ævinnar! Ekki vildi ég taka þá áhættu, svo ég greip til þeirra ráða sem mælt var með og hóf að tína saman tíu fegurðardísir af tölvupóstlistanum mínum. Þangað skyldi áframsenda póstinn. Þá versnaði í því. Eftir að bloggið hófst er ég svo löt að skrifa bréf, að það fundust ekki nema átta konur á listanum auk þeirrar sem sent hafði keðjubréfið! Heppni að þær skyldu allar vera glimrandi fallegar! Slatti af körlum er á listanum, en ég kunni ekki við að senda þeim þetta. Ég held að enginn þeirra hafi áhuga á að vinna í fegurðarsamkeppni. Eftir smáumhugsun mundi ég eftir tveimur góðum kandidötum í viðbót sem ég kunni netföngin hjá, og hélt þar með að ég væri sloppin. En ekki aldeilis! Eitt netfangið var þá úrelt. SMS var þá sent í snatri til að bjarga einu í viðbót - en þá þurfti ég að fara út í bílaleik. Í gær var svo mikið eldingaveður að eitthvað fór úrskeiðis í rafmagninu og ekkert rafmagn er í fjósinu. Svo kom rafvirkinn, en þá var enginn heima nema grimmi varðhundurinn, svo hann komst ekki út úr bílnum og hvarf á braut við svo búið. Þegar fjósamaðurinn kom var sumsé ennþá ljóslaust í fjósinu og ég í miðjum klíðum að reyna að forðast ljótleikann. Þá fékk ég þá snjöllu hugmynd að aka Grána gamla upp að fjósinu og lýsa inn. Fyrst þurfti að moka hann upp úr snjónum. Það er óvenjulegt hér á bæ. Svo var ekið útá tún, en kom þá í ljós að fjórhjóladrifið var ekki að virka, svo Gráni sat fljótlega fastur þar. Og situr enn. Þar verður hann líklega að bíða vors. Sem kemur vonandi innan tveggja vikna, eða svo. Vonandi verð ég þá ennþá falleg.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð. Ja hérna skrautlegur dagur. Vonandi næst Gamli Gráni þar sem hann situr fastur núna. Gott að þú mundir ekki eftir mér með keðjubréfið. Má ekki við fleiri hrukku.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 18.1.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Ég mundi eftir þér! Fyrst var ég með vitlaust netfang. Svo þegar ég reyndi að senda aftur þá kom einhver villa, svo ég gafst upp. Ég held að það hafi fylgt Trójuhestur í þessu skeyti, svo þú mátt vera fegin ef það hefur ekki komist til skila! Hrukkur eru samt flottar. Engar áhyggjur af Grána, hann er vel geymdur þar sem hann er.

Guðrún Markúsdóttir, 18.1.2008 kl. 20:01

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl aftur.    

Rósa Aðalsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband