4.1.2008 | 00:01
Gleðilegt nýtt ár!
Áramótin sluppu fyrir horn. Það var svo mikið rok að flugeldarnir flugu lárétt. Markús lét það ekki á sig fá og dreif sig út á milli éljanna vopnaður sprengjum sem hann plataði ,,frænda" sinn að norðan til að gefa sér í jólagjöf. Frændinn og ég þurftum svo að standa og horfa á, en það kom ekki að sök, því við eigum svo góða kuldagalla.
Það var farið í Oddakirkju á gamlárskvöld, en lítið var um hátíðarguðsþjónustur á nýársdag. Ekki virðist lengur til siðs að bjóða upp á slíkt í þessu héraði. Tveir gestir komu hins vegar á nýársdag, þau töldu að við værum líklegust til að vera í standi til að taka á móti gestum á þessum degi, þar eð við mundum örugglega ekki þjást af þynnku eða öðrum bagalegum fylgifiskum áramóta. Við vorum mjög ánægð með að hafa orðið fyrir valinu, enda var ég búin að baka tvær kökur þegar hér var komið sögu. Var líka svo heppin að vera komin á fætur fyrir kaffi.
Fór til Reykjavíkur í gær í herlegheitasamkvæmi sem haldið var til heiðurs Guðnýju frænku minni. Þar voru veitingar með afbrigðum góðar, enda lögðust allir á eitt. Þegar á leið hófst upp söngur og var þá því líkast að komið væri inn á safnaðarsamkomu hvítsynninga fyrir fjörutíu árum. Það hlýjaði manni heldur betur um hjartaræturnar. Markús eignaðist nýjan vin á meðan. Hann er kallaður Bob. Þeir hafa mikinn áhuga á bifreiðum. Nú verður auðveldara að skipuleggja ferðina til Bretlands, því Bob ætlar að bjóða Markúsi í ökuferð á einhverju tryllitæki sem ég kann ekki að nefna.
Ég gladdist heldur betur áðan þegar ég komst að því að Rósa Aðalsteinsdóttir vinkona okkar er byrjuð að blogga. Ég hvet alla til að skoða síðuna hennar. Ég komst einnig að því að Ragnar frændi minn er bloggari. Hann er líka mikill merkismaður.
Athugasemdir
Sæl mín kæra. Ég stóð mig illa fyrir jól með jólakort o.fl. Fékk leiðindar pest en er að jafna mig loksins núna enda að verða kominn einn mánuður. Ég sé að Guðrún vinkona okkar er hér núna. Langt síðan ég hitti þá skvísu. Sundum er ágæt að búa á hjara veraldar en stundum spælandi þegar eitthvað spennandi er að gerast í vinahópnum mínum stóra á Suðvesturhorninu. Ég var í Broadstairs á suðausturströnd Englands í þrjár vikur í sumar. Ég var búin að fá upplýsingar um að Guðný yrði heima á Íslandi á sama tíma sem svo reyndist rangt. Ég var ekkert lítið spæld því ég hef aldrei komið til Englands áður og einn laugardaginn var ég í nágrenni við Guðnýju. Þegar bréfið kom og stóð að einhver goodster vildi gerast bloggvinur minn. Hver er nú það? Fyndið og svo varst það þú. Við verðum í bandi. Gleðilegt nýtt ár og ég óska þér Guðs blessunar.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.1.2008 kl. 03:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.