25.11.2007 | 01:59
Það hefur bæði kosti og galla
að deila tölvu með unglingi - en aðallega er það gallað. Það er kostur að hann kann nógu mikið til þess að geta veitt aðstoð ef maður lendir í minni háttar vandræðum - og maður getur auðveldlega fylgst með því hvað hann gerir í tölvunni. Gallinn er að tölvan getur skyndilega orðið full af einhverju óvelkomnu drasli. Og svo eru snúrurnar alltaf í flækju. Það fer ótrúlega í taugarnar á mér. Í dag er tölvan alveg Frisk-frísk, nýkomin úr hreinsun, eftir miklar árásir. Sérdeilis þægilegt að skipta við starfsmenn Friðriks Skúlasonar, þeim fannst greinilega að þær bæru algera ábyrgð á ástandinu og brugðust skjótt við eftir að unglingurinn hafði gefist upp. Loksins er hægt að blogga aftur! Ég gleðst nú yfir því að hafa fengið nýja bloggvini og býð þá velkomna. Af mér er ekkert að frétta, ég hef bara reynt að hvíla mig og safna kröftum. Vinnan í leikskólanum er þægileg, þar eru allir vinir og öllum líður vel. Þannig á það að vera. Ég vinn frá 11 til 5 og reyni að hjóla í vinnuna fjóra daga vikunnar. Það er mjög hressandi, sérstaklega í rigningu. Skrapp í verslunarferð til Reykjavíkur í dag og heyrði svo í fréttunum að menn hefðu átt að taka sér frí frá innkaupum einmitt í dag! Úpps! Of seint. Keypti alveg helling af dóti. Og ég var ekki ein um það. Stóra hryllingsbúðin var alveg morandi af kaupóðu fólki. Í dag var einmitt rétti dagurinn til að kaupa jólagjafirnar handa vinum og ættingjum í útlöndunum. Nú er það að mestu afgreitt - bara eftir að senda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.