,,Áttu ekki einhverja vini?"

spurði læknirinn sem kom að líta á mig á laugardaginn. Sumir læknar eru svo fyndnir. Hann þurfti að klofa yfir moldarhrúgur á ganginum á leiðinni inn og hefur líklega ofboðið draslið sem fyrir augu bar. Ég reyndi að útskýra að ég hefði ekki haft heilsu til að taka til þennan dag, og þá fullyrti hann að það væri eins heima hjá honum sjálfum! Errm  Um morguninn hafði ég vaknað með svo mikinn svima að ég gat ekki farið á fætur. Þessvegna hringdi ég á lækni. Ég vildi vita hvort þetta væri eitthvað að ganga. Hann kvað svo ekki vera, og þá dró ég þá ályktun að ég væri bara svona þreytt. Það taldi hann fráleitt. Hann sagðist oft hafa þurft að gera 200 hluti og aldrei svimað. Hann ákvað að það væri vissara að líta á mig. Ég var svosem fegin því, það er ekkert grín þegar allir hlutir virðast hringsnúast! Þegar læknirinn kom síðdegis leið mér betur. Hann lét mig horfa á puttann á sér þangað til mig fór næstum að svima aftur (svona eins og í bíómyndunum) og nuddaði á mér axlirnar þangað til ég æpti. Mjög góður læknir. Ég lét móðan mása á meðan um flest sem mér lá á hjarta og þá kom þessi frábæra spurning. Jú, sem betur fer á ég góða vini, takk fyrir það öllsömul! Fæstir þora að skrifa hér á bloggið, en mér þykir ekki síður vænt um tölvupósta, símtöl og heimsóknir. Mér líkar t.d. alveg sérlega vel við fólk sem segir að ég sé gáfuð og skemmtileg! Og þeir sem heimsækja mig og taka til hjá mér lenda alveg í sérflokki. Læknirinn hefði nú bara átt að sjá hvernig leit út hérna áður en Balázs og Kitti tóku til í skrifstofunni! Eða áður en tekið var til í skemmunni! Það skal tekið fram að þessi læknir var ekki Guðmundur Benediktsson, en hann er ekki síður fyndinn og hefði eflaust leyst málið farsællega. Mig svimar ekki lengur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband