3.7.2007 | 23:56
Köngullóa-þáttur
Sko! Ég er ekki ein um að halda köngullær! Hrossið í haganum (bloggari) gerir það líka! Komst að því mér til mikillar ánægju hér áðan. (Þurfti bara aðeins að skreppa frá og sinna túnslætti - í rigningarskúrinni sem allir hafa beðið eftir - og illgresið er líka heldur sneypulegt núna, komið í safnhauginn mestallt). Köngullærnar sko: Flestir sem heimsækja mig eru stórhneykslaðir á þessum fénaði sem hangir utaná húsinu. Sérstaklega í ljósi þess að ég var alin upp við mikla fóbíu gagnvart köngullóm. Mamma hatar köngullær. (Mér finnst flott að skrifa köngulló með tveimur l-um). Ég minnist þess frá bernskunni að skerandi óp frá mömmu táknaði alltaf hlaupandi köngulló. Hún og pabbi geymdu gjarnan ýmislegt dót í pappakössum og það líkaði köngullónum vel. Eins földu þær sig á bak við skápa sem sjaldan voru hreyfðir og þær ósvífnu gengu jafnvel frá sér undir rúmi. Svo þegar þær héldu að enginn sæi til hlupu þær eins og fætur toguðu á milli felustaðanna. En mamma fylgdist vel með. Og þá kom veinið - köngullóa-veinið. (Ég er ekki enn búin að læra að gera svona gul andlit - en hér væri viðeigandi að setja eitt þannig). Ég var næmur krakki, og lærði fljótt að öskra hástöfum ef ég sá köngulló. Svo um tvítugt fór ég að vinna í skógrækt. Þar voru gróðurhús og köngullær. Ég var alltaf álitin hálfskrýtin, því ég fór ekki inn í gróðurhús án þess að sveifla hrífuskafti á undan mér - altso til að hreinsa niður köngullærnar. - Mamma skildi ekki hvernig ég gat unnið þarna. - Svo upphófst hlýnun jarðar og svona gróðurhúsaköngullær urðu algengar um allt land - held ég - utanhúss. Og löngu seinna eignaðist ég mitt eigið gróðurhús - með köngullóm. Nú hefur það runnið upp fyrir mér að köngullær eru ekki allar eins. Mér er ennþá meinilla við þessar undirförlu sem fela sig í skúmaskotum. Og ég mundi heldur ekki vilja hafa þessa sem flutti inn í hús á Krít um daginn. Og ekki þá sem ég sá í Ísrael um árið. Ég held að hún hafi verið frænka þessarar á Krít. Hún hljóp upp á bak á einum samferðamanninum. Ógleymanlegur hryllingur. Maðurinn tók því með ró, enda sér maður svo illa niður á bak á sér. - Víkjum aftur að þessum íslensku. Ég keypti mér geymslukassa úr plasti í Rúmfatalagernum. Skúmaskotaköngullær hafa engan áhuga á að búa í þeim. Eru þær því að mestu útdauðar. Hinar sem hanga utaná húsinu eru í vinnu við að éta flugur. Og veitir ekki af, því ég bý í sveit. Og flugum finnst eins og mér, betra að búa í sveit. Og við viljum ekki nota eitur, því þá drepst alltaf eitthvað fleira óvart. Ekki má drepa bumble bees, hvað svosem þær heita nú á íslensku, þær eru í vinnu í gróðurhúsinu - þær eru svo svakalegar hlussur að þær taka varla eftir því þótt þær fljúgi á köngullóarvef. Hins vegar var einu sinni lítill fugl í fjósinu, hann flaug í köngullóarvef og lenti í hálfgerðum vandræðum. Honum tókst þó að losa sig áður en hjálp barst (frá mér), en köngullóin þurfti að ráðast í gagngerar endurbætur. (Nú er ég komin út fyrir efnið). Ég lendi stundum í því, eins og Hrossið, að köngullær fá sér gönguferð inn loft í svefnherberginu, þess vegna þarf að skanna vel áður en maður fer að sofa, og helst fara seint að sofa. Sjá nánar um þetta í athugsemd hjá Hrossinu. Köngullóakveðjur.
Athugasemdir
Velkomin í Bloggheima Guðrún mín, skemmtileg lesning um kónguLLær!
G.Helga Ingadóttir, 4.7.2007 kl. 17:10
Þar sem að þú hefur nú frítt andlit og stórt og fallegt hjartalag, blítt bros o.s.f.v. þá finnst mér nú að þú ættir að sína þitt rétta andlit á Blogginu! Drottinn blessi þig vinkona og komdu sem oftast í Eldstó!
G.Helga Ingadóttir, 4.7.2007 kl. 17:12
Það liggur við að maður fái ritstíflu af öllu þessu hrósi. Ég get þó sagt að þú ert sjálf ekki síður gædd þessum ágætu eiginleikum, og það vita allir fastagestir á Eldstó. Ég myndast auðvitað líka alveg sérlega vel, svo þetta er ekki slæm hugmynd hjá þér. Var að æfa mig í myndalímingu núna áðan. Sjáumst.
Guðrún Markúsdóttir, 4.7.2007 kl. 23:45
Hahaha kóngullóa sagan er góð, ég skil þig svo vel að vilja þær heldur en flugurnar. Sonurinn var kominn með eina í hendurnar áðan úti á palli, ég rak hann til að skila henni strax í sinn vef og hann gerði það. Það var STÓR hlussa og þá dugleg að veiða.
Takk fyrir komuna á mína síðu
Ragnheiður , 5.7.2007 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.