Hrefnukjöt í matinn - nammi namm

 

Þessi þáttur er tileinkaður G. fræ. í Bretlandi. Þegar ég borða sérlega góðan mat þá verður mér alltaf hugsað til hennar. Í kvöld þurfti ég reyndar ekki að gera neitt nema ofnbaka kartöflubáta og steikja kryddlegið kjöt á pönnu. Mjög auðvelt. Svo hrærði ég hvítlaukssmjör. En þetta var ekkert venjulegt kjöt. Þetta var hrefnukjöt. Ég hef einu sinni keypt hrefnukjöt áður. Það var í tilraunaskyni. Það var ókryddað og frosið og mjög ódýrt, enda til sölu í Bónus. (Komum nánar að því síðar). Í það sinn skar ég kjötið í ræmur, lagði fyrst í mjólk og síðan í hvítlauk, engifer og soja, og e.t.v. eitthvað fleira sem ég man ekki. Svo var snöggsteikt grænmeti að austurlenskum hætti, kjötið einnig snöggsteikt og síðan var tilraunin tvískipt, annars vegar karrísósa og hins vegar ostrusósa. Sonur minn raðaði þessu öllu í sig með bestu lyst og óskaði eftir að hrefnukjöt yrði hér eftir fastur liður á matseðli heimilisins. Mér persónulega fannst aðeins of mikið villibráðarbragð af kjötinu, en hugsaði að ég hefði átt að láta það marinerast lengur. Síðan eru liðnir margir mánuðir, og hrefnukjöt hefur ekki verið til sölu þar sem við höfum átt leið um. Þangað til í dag. Þá var ég svo heppin að ráfa inn í það sem nú heitir Kjarval á Hellu og þar blasti við þetta fína kryddlegna hrefnukjöt - ófrosið - og pakkað í gær. Myndin utaná benti til að þetta skyldi steikjast eða grillast í heilu lagi - og ekki of lengi. Þegar heim kom var röndótta steikarpannan hituð vel, og sneiðarnar tvær sem komu úr pakkanum steiktar eins og um nautakjöt væri að ræða. Venjulega kaupi ég ekki kryddlegið kjöt, því mér finnst það alltaf of saltað og einhvern veginn skrítið. En hrefnukjötið var fullkomið. Alveg mátulega kryddað og fór vel með bökuðum kartöflum og hvítlaukssmjöri. Algjör dásemd. Sonurinn skolaði þessu niður með heilum lítra af beljumjólk sem ég fékk í skiptum fyrir gulrætur hjá nágrannabónda. (Ég er hrædd um að sá verði að fara að herða sig í gulrótaátinu, ef það á að haldast jafnvægi í þeim viðskiptum).

            Talandi um beljumjólk - elskuleg kona færði okkur brodd nú í vikunni. Úr honum urðu þær bestu ábrestur sem ég hef smakkað. Ég vona að henni hafi líkað jarðarberin sem hún fékk í staðinn. Nú hefur jarðarberjatíðin hin fyrri náð hámarki, svo þeir sem ekki hafa haft rænu á að heimsækja mig nú í júní munu líklega missa af herlegheitunum.

            Vinur okkar P. kom í sína árlegu júní-heimsókn um daginn. Þá er fastur liður að bera fram nýbakað rabarbarabrauð og grilla að kvöldi. Ég var búin að tilkynna honum að boðið yrði upp á grillaða kjúklinga, og hann hafði ekki hreyft mótmælum við því. Þess vegna kom mér dálítið á óvart að hann skyldi hafa með sér nesti á grillið. Klaustursbleikju. Það kom sér reyndar mjög vel, því nágrannakonan sem einnig var boðin í grillið tilkynnti að hún æti ekki kjúklinga nema í neyð.

Þegar kom að því að hella skyldi upp á kaffi þennan dag, þurfti að opna nýjan kaffipakka. Ég bauð P. að velja Gevalia eða eitthvað nýtt merki. Hann er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Hann spurði hvar ég hefði fengið kaffið, og þegar ég svaraði ,,Bónus" sleppti hann pakkanum eins og hann hefði brennt sig og pakkinn skall í gólfið. Ég spurði hvort köngulló hefði verið á pakkanum. (Þannig hefði ég brugðist við því). Nei, hann hefur bara svona megnan ímugust á Bónusfeðgum. Hann borðar ekki mat úr Bónus nema í neyð. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að við fátæklingarnir í sveitinni hefðum bara ekki efni á að hata Bónus. Næsta búð ku vera dýrasta búð á landinu, en þarnæsta búð er Bónus á Selfossi. Það sljákkaði aðeins í P., en ég held að hann hafi bara hlustað með öðru eyranu. Hann borðaði þó rabarbarabrauðið með góðri lyst, þrátt fyrir að rúsínurnar væru e.t.v. úr Bónus. Kjúklingarnir voru góðir, en næst þegar P. kemur í heimsókn verð ég að muna að bera fram heimaræktað kjöt eða fisk - eða hrefnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband