9.6.2007 | 01:54
Vestmannaeyjar - Paradís á jörð
Þriðja tilraun. Við fórum sumsé til Vestmannaeyja. Ungverjarnir eru tónlistarmenn í atvinnuleit, og það var eitt tilefni ferðarinnar. Svo er bara svo gaman að vera túristi í Vestmannaeyjum. Frændgarðurinn í Víkingaferðum tók á móti okkur, og það var alveg toppþjónusta. Unnur tók á móti okkur á flugvellinum og fór með okkur í rútuferð um eyjarnar. Sonur minn vill helst fara aftur strax til að æfa sig í spröngunni. Ég sprangaði líka - komin á fimmtugsaldurinn. Ég gleymdi því snöggvast hvað ég væri gömul og klöngraðist upp á klettinn. Svo þegar ég átti að stökkva framaf, þá mundi ég það. Skelfingin var algjör. En af því að hinir túristarnir og Unnur voru að horfa þá kunni ég ekki við að guggna á því. Ég bjóst við að mín síðasta stund væri upp runnin og ég yrði fyrsti maður til að farast í spröngunni. Svo ég ákvað að gera þetta með stæl, rak um ferlegt öskur og spriklaði eins og fiskur á öngli, en komst mér til mikillar undrunar heil á húfi niður. Svo var farið í bátsferð og kafteinn Simmi spilaði á Sax í hellinum. Það var ógleymanleg upplifun. Himnafaðirinn ákvað að vökva okkur aðeins á leiðinni, en það jók bara á stemminguna. Næst verð ég með linsurnar, svo ég sjái fuglana betur. Svo þornuðum við fljótt og vel við kaffi og kakódrykkju á Kaffi kró. Næst var farið í sædýrasafnið. Það var flott. Því næst í tónlistarskólann, hann er glæsilegur og við komumst einnig að því að hægt er að komast á sjóræningjasýningu. Hún var ekki í gangi, við sjáum hana vonandi næst. Í lok ferðarinnar fengum við dásamlegan kvöldverð sem kafteinninn eldaði á Krónni, og allt í boði hússins. Simmi og Unnur, takk kærlega fyrir okkur. Verið ævinlega velkomin á Langagerðisbúgarð að njóta allra gæða sem þar eru. Ekkert jafnast þó á við Eyjarnar og við mælum með Víkingaferðum - Viking Tours. Takk aftur, Simmi og Unnur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.